Ávaxtakarfan og Sinfó!

Ég fór með syni mínum á tónleika síðasta laugardag með Sinfóníuhljómsveit Íslands, þar sem leikin voru lögin úr hinu stórskemmtilega leikriti um Ávaxtakörfuna. Söngvarar voru Andrea Gylfadóttir, Selma Björnsdóttir, Valgerður Guðnadóttir og Jón Jósep Snæbjörnsson, ásamt sögumanninum Erni Árnasyni. Þetta byrjaði nú heldur betur ekki vel. Ég veit hvað taktur er og líka hvað taktleysa er, en það sem var að gerast hjá okkar ástsælu sinfó þarna í byrjuninni á fyrsta laginu (Litir) var hvorki taktur né taktleysa, úff, það var hræðilegt að sitja þarna og hlusta á þennan gjörning. Það var hreinlega engin taktur í gangi hjá þeim. Ekki batnaði það þegar hún Selma kom inn í með sönginn. En þetta er það eina sem ég get sett út á hvað varðar hljómsveitina. En blessað söngfólkið var ekki búið að "syngja sitt síðasta"

Ítrekað gerðist það að þau vissu ekki hvenær ætti að byrja að syngja. Þ.e.a.s. hvenær söngurinn ætti að koma inn í hverju lagi. Meira að segja hélt Jónsi áfram að syngja í einu laginu þegar hann átti ekki að gera það. Þetta virkaði allt eins og þetta væri illa eða jafnvel óæft. Sýningunni "hent upp" svona einn, tveir og þrír. Hrist fram úr erminni, græðum smá pening!

Sögumaðurinn, Örn Árnason, söng held ég meira heldur en Jónsi. Á meðan sat Jónsi á stól á sviðinu og lét lítið fyrir sér fara. Hugmyndin góð af þessu öllu saman, en hrikalega illa sett upp.

Sonur minn hafði þó gaman af þessu. Hann er 3 ára. Það er kannski fyrir öllu. En bæði ég og mamma hans fórum með, þessi hljóðmengun kostaði fjölskyldu mína kr 4800.-


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband